Rétturinn til að svívirða og smána

 Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður hefur lagt talsvert á sig til að verja rétt manns til að svívirða, niðurlægja, smána og hæðast að fólki vegna kynferðis þess. Ef ég skil Helga Hrafn rétt vill hann meina að ekki megi skerða rétt fólks til að meiða aðra með orðum.  
Ég er algjörlega ósammála því.
Þingmenn sem vilja berjast fyrir rétti fólks til svívirðinga ættu að nýta sér stöðu sína og leggja fram þingmál í þeim tilgangi. Það gætu þeir t.d. gert með því að leggja til breytingar á hegningarlögum og stjórnarskrá þar sem kveðið er á um mannréttindi, siðgæði og mannorð. Þeir gætu einnig barist fyrir breytingum á námskrám grunn- og framhaldsskóla þar sem sömuleiðis er víða kveðið á um rétt fólks, óháð trúarbrögðum eða kynferði. Þingmenn geta einnig reynt að hafa áhrif á tillögur stjórnlagaráðs í þeim tilgangi að auðvelda fólki að svívirða. Í þeim tillögum er sérstakur kafli um mannréttindi og mannlega reisn sem fellur illa að hugmyndum þingmannsins um frelsi fólks til að níðast á öðrum vegna kynferðis þeirra.
Það er því greið leið fyrir þingmenn að breyta leikreglum samfélagsins að þessu leyti til ef þeir í alvöru vilja það.
Annars eru þetta orðin tóm.

 

Comments

Helgi Hrafn Gunnarsson's picture

Mér þykir þú fljótur að gefa þér aðgerðaleysi mitt, félagi og bróðir. Ég hef lagt fram tvö frumvörp á yfirstandandi þingi þess efnis sem þú nefnir. Lagði einnig fram breytingartillögu sama efnis í fyrra þegar orðafari 233. gr. a. í almennum hegningarlögum var breytt til hins verra.

Eitt er afnám fangelsisrefsinga við tjáningu skoðana: http://www.althingi.is/altext/144/s/0544.html

Hitt er afnám banns við guðlasti: http://www.althingi.is/altext/144/s/0821.html

Að lokum leyfi ég mér að birta hér ræðu mína á Alþingi í heild sinni og vona að þú hafir tíma aflögu til þess að gefa mér álit þitt á efnisatriðum hennar, en ég óska eftir því vegna þess að ég sé enga efnislega gagnrýni á þær röksemdir sem ég hef notað máli mínu til stuðnings.

"Virðulegi forseti. Til stendur að hefja hinsegin fræðslu í Hafnarfjarðarbæ og er það vel. Viðbrögð Gylfa nokkurs Ægissonar, hæstv. tónlistarmanns, voru á þá leið að koma á fót facebook-síðu til þess að mótmæla þessum áætlunum en síða hans nefndist hinu kaldhæðnislega nafni Barnaskjól.

Skoðun Gylfa Ægissonar, hæstv. tónlistarmanns, á samkynhneigð er orðin þjóðþekkt enda ein óvinsælasta skoðunin á Íslandi um þessar mundir og með réttu. En þrátt fyrir fullkominn ósigur hans í umræðunni nú sem fyrr er þó strax komin fram krafan um að tilkynna síðu hans sem hatursáróður og þar með fá henni lokað. Halda má því til haga að það er ákvörðun facebook, ekki okkar. En það er þó fullt tilefni til að mótmæla slíkum kröfum Menn hætta ekki að hafa skoðanir með því að þeim sé bannað að tjá þær. Þvert á móti sannfærir þöggun fólk um það eitt að samfélagið sé rökþrota, að fólk sem berjist gegn fordómum þori ekki einu sinni að verja stuðning sinn við eitthvað jafn sjálfsagt og hinseginfræðslu og kynfrelsi og umburðarlyndi.

Virðulegi forseti. Vondar skoðanir verða að heyrast til þess að hægt sé að kljást við þær. Með því að þagga niður í óvinsælum skoðunum lokum við augunum fyrir vandanum og skiljum hann eftir jafn óútkljáðan og áður. Börn fordómafulls fólks munu halda áfram að heyra slíkum skoðunum varpað fram á heimilinu, jafnvel þó að tekið sé fyrir þær á svæðum eins og facebook. Munurinn er sá að á heimilinu heyrast ekki einnig viðbrögð samfélagsins.

Kynfrelsi, hinseginfræðsla og umburðarlyndi eru sterkari málstaðir en svo að þeir krefjist skoðanakúgunar til að bera sigur af hólmi. Allra versti óvinur fordómanna er opin og frjáls umræða.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir."