Kjörtímabil ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar var eitt örfárra tímabila án verkfallsátaka og launadeilna. Undantekningin frá því var verkfall flugumferðarstjóra 2009. Á tímabilinu voru gerðir samningar við launafólk sem fólu í sér nokkra kjarabót. Mest um vert var þó að það var nauðsynlegur friður á vinnumarkaðinum, friður sem þjóðin þurfti á að halda til að hefja uppbygginguna eftir Hrunið.
Nú er öldin önnur.
Þau tvö ár sem hægristjórnin hefur verið við völd hefur landið logað í átökum á milli launþega og atvinnurekenda. Tíð verkföll hafa reglulega lamað þjóðfélagið og gera enn. Viðhorf stjórnvalda til launafólks einkennast af hroka og skilningsleysi á kröfum launafólks. Fjármálaráðherra segist nú vera hugsi yfir því að launafólk fari í verkföll til að verja og bæta kjör sín. Segir að launafólk taki grunnstoðir samfélagsins í gíslingu . Þau orð eru ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að hann vilji skerða verkfallsréttinn. Kannski verður það framlag hægristjórnarinnar í deilunum á vinnumarkaðinum.
Þeim er trúandi til alls.