Nú eru fimm ár frá því að skýrsla Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 var lögð fram. Skýrslan er stórmerkileg í alla staði. Hún lýsir því vel sem gerðist í stjórnmálum og atvinnulífinu á árunum fyrir Hrun og hefur vakið athygli jafnt hér heima sem erlendis.
Fjölmiðlar fengu slæma dóma í skýrslunni . Þeir þóttu óábyrgir og ógagnrýnir í umfjöllun sinni um efnahagsmál og hina nýríku stétt Íslendinga. Miðað við þá útreið sem fjölmiðlar fá í þessari merku skýrslu mætti halda að ástandið í dag væri með öðrum og betri hætti.
Skoðum það aðeins.
Morgunblaðið er í eigu íslenskra útgerðarmanna og ritstýrt af einum þekktasta stjórnmálamanni samtíðarinnar, manni sem var í aðalhlutverki íslenskra stjórnmála í aðdraganda Hrunsins. Blaðið er fyrst og fremst málgagn eigenda sinna og það hefur skýr pólitísk markmið.
Fréttablaðið hefur að undanförnu hert róðurinn sem málsvari eigenda sinna eins og merkja má í leiðurum blaðsins. Trúverðugleiki fréttaskrifa hefur beðið talsverðan hnekki vegna afskipta eigenda blaðsins af þeim.
DV er í eigu forystumanns úr framsóknarflokknum og hefur augljós pólitísk markmið sem slíkt. Blaðið er fyrst og síðast málgagn en ekki fréttamiðill.
Eyjan og Pressan eru í eigu sama aðila og DV. Pólitísk markmið miðlanna verða æ augljósari og er báðum beitt með talsverðum ákafa fyrir málstað framsóknarflokksins og ríkisstjórnar hægriflokkanna.
Kjarninn er gagnrýninn miðill sem fjallar með djúpum og yfirveguðum hætti um efnahagsmál og aðgerðir stjórnvalda á ýmsum sviðum. Ekki er að merkja að Kjarninn gæti annarra hagsmuna en lesenda sinna og njóta blaðamenn hans trausts vegna þekkingar sinnar á því sem þeir fjalla um.
Stundin er í eigu og stjórnað af fyrrum starfsmönnum DV sem bolað var í burtu við eigendaskiptin þar fyrr í vetur. Stundin er gagnrýnin í skrifum sínum og hjá henni starfa margir af bestu fjölmiðlamönnum landsins.
RÚV ber sem fyrr höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla í umfjöllun sinni um þjóðmál. RÚV er sá eini af eldri fjölmiðlunum sem virðist hafa tekið áfellisdóma RNA alvarlega og leggur sig nú fram um að flytja fréttir með trúverðugum hætti og af dýpt.
Þrír síðastnefndu miðlarnir hafa verið gagnrýndir harðlega af stjórnvöldum fyrir umfjöllun sína um ýmis mál. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa jafnvel sniðgengið þessa miðla, neitað þeim um viðtöl og reyna að gera starfsemi þeirra tortryggilega.
Fljótt á litið virðist fjölmiðlun á Íslandi vera í heldur verri málum í dag en fyrir Hrun.
Það er ekki gott.