Alþingi samþykkti í tvígang á síðasta kjörtímabili lög um byggingu nýs Landspítala. Um þá lagasetningu var þverpólitísk samstaða á þinginu. Það voru aðeins þrír þingmenn sem lögðust gegn því að nýtt sjúkrahús yrði byggt, þau Höskuldur Þórhallsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Margrét Tryggvadóttir. Nokkrir sátu hjá. Undirbúningur að byggingu nýs Landspítala hefur tekið mörg ár og kostað nokkra milljarða króna. Á þessum árum hafa fjölmargir sérfróðir aðilar komið að undirbúningnum og jafnframt fyrir nokkru skilað niðurstöðum. Þær niðurstöður byggjast á umfangsmiklu starfi og rannsóknum á öllum þáttum málsins.
Ummæli forsætisráðherra að undanförnu um framtíð Landspítalans einkennast annað tveggja af yfirgripsmikilli og djúpri vanþekkingu hans á málefnum spítalans eða þau eru sett fram í þeim tilgangi að tefja og jafnvel að koma í veg fyrir byggingu spítalans.
Það er mat forstjóra Landspítalans að það stafi öryggisógn af ástandi Landspítalans. Að sama skapi ógnar forsætisráðherra heilbrigðisöryggi landsmanna með dæmalausum ummælum sínum.
Það er alvarlegt mál.