Það er ekkert nýtt að formannskjör í stjórnmálaflokki valdi usla og skapi umtal innan flokka sem utan. Sem dæmi um slíkt má rifja upp þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður framsóknarflokksins í ársbyrjun 2009. Tvær umferðir þurfti til og þegar úrslit lágu loksins fyrir var tilkynnt um sigur Höskuldar Þórhallssonar en það leiðrétt nokkrum mínútum síðar.
Bjarni Benediktsson hefur átt í mestu strögli allra formanna og fengið mótframboð í þremur af þeim fjórum skiptum sem kosið hefur verið um formann í sjálfstæðisflokknum frá Hruni. Fyrst var það Kristján Þór Júlíusson sem spreytti sig og fékk 40% atkvæða á móti tæplega 60% atkvæða Bjarna. Síðan var það Pétur Blöndal sem bauð sig fram gegn Bjarna (5 tímum fyrir kosningu) og fékk 30% atkvæða en Bjarni 62%. Að lokum var það svo Hanna Birna Kristjánsdóttir sem reyndi með eftirminnilegum hætti að fella Bjarna og fékk 45% atkvæða á móti 55% atkvæða Bjarna.
Allir mótframbjóðendur formannanna hafa átt erfitt uppdráttar. Höskuldur Þóhallsson hefur enga stöðu innan framsóknarflokksins umfram óbreytta þingmenn. Pétur Blöndal hefur sömuleiðis átt erfiðara uppdráttar en áður og Kristján Þór Júlíusson var síðar kjörinn annar varaformaður sjálfstæðisflokksins en hann staldraði stutt við. Hann var síðar gerður að heilbrigðisráðherra sem sjaldan hefur verið talið mönnum til framdráttar í pólitík. Verst fór þó Hanna Birna Kristjánsdóttir út úr þessu, jafnt innan flokks sem utan og sér ekki enn fyrir endann á þeim pólitíska hildarleik.
Ef maður vill svo fara enn lengra aftur í tímann má rifja upp þegar Davíð Oddsson fór gegn Þorsteini Pálssyni og felldi hann. Um það má m.a. lesa í bók Guðna Th. Jóhannessonar um ævi Gunnars Thoroddsen. Hver man svo ekki þegar Jóhanna Sigurðardóttir tókst á við Jón Baldvin Hannibalsson í formannskjöri í Alþýðuflokknum á sínum tíma og Jón hefur ekki enn fyrirgefið.
Fæstir tapararnir í framangreindum dæmum áttu sér viðreisnar von í stjórnmálum í kjölfar formannskosninganna.
Jóhanna Sigurðardóttir er undantekningin frá því.