Bleikjueldi Ragnheiðar

 Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra hefur ákveðið að samfélagið muni styrkja bleikjueldisfyrirtækið Matorku um mörg hundruð milljónir króna. Hún gerir það án þess að færa fyrir því sérstök rök önnur en þau að fyrirtækið hafi uppfyllt óljós skilyrði sem finna má í drögum að ósamþykktu lagafrumvarpi um ívilnanir. Sjálf segist hún ekki hafa kynnt sér málið til hlítar eins og fram kom í Kastljósinu í gær. Eignarhald á Matorku er í höndum fyrirtækja sem skráð eru í Liechtenstein, Sviss og Noregi. Eigendur þeirra fyrirtækja er fólk nátengt sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórninni. Sumir eigendanna hafa komið fyrir þingnefnd til að tala fyrir lagafrumvarpi um ívilnanir sem ráðherrann vísar til vegna styrkjanna.
En það er ekki við þetta fólk að sakast.
Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur hins vegar farið svo langt yfir strikið að draga má mjög í efa hæfi hennar til að sitja áfram sem ráðherra. Ef henni tekst ekki á allra næstu dögum að útskýra og rökstyðja svo vel fari þessa embættisfærslu sína verður hún að víkja úr ríkisstjórn.
Ef það er þá ekki þegar orðið of seint fyrir hana að taka til varna.