Það er ekki á hægrimenn logið

Ég nenni ekki að leiðrétta alla vitleysuna sem vall upp úr formanni fjárlaganefndar Alþingis í útvarpinu í hádeginu.
En fyrir þá sem vilja gleyma er rétt að rifja upp að ohf. væðing opinberra fyrirtækja fór öll fram í stjórnartíð framsóknarflokksins á árabilinu 1995-2007. Það á t.d. við um Póstinn, flugmálin og RÚV svo dæmi séu tekin. Enda var það beinlínis stefna þessara stjórnarflokka að einkavæða og útvista opinberri starfsemi. Í stefnuyfirlýsingu fyrstu ríkisstjórnar þessara flokka frá árinu 1995 segir m.a.: „Að leggja fram áætlun um verkefni á sviði einkavæðingar sem unnið verður að á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða. Það á einnig við um fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Unnið verður að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis.“
Það má lesa margt fleira í þessa veru í fyrri stefnuyfirlýsingum ríkisstjórna hægriflokkanna.
Með því að lýsa því svo nú yfir að snúa til baka með eignarformið og samhliða að ríkið eigi ekki að vera með rekstur á samkeppnismarkaði er verið að ganga skrefið til fulls og einkavæða þessa starfsemi.
Það er ekki á hægrimennina logið.
Þeir eru sínu trúir hvernig sem allt hvolfist og fer.