Þau ljúga og stela

Í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitisins um samkeppni á dagvörumarkaði segir m.a.: „Þannig hefur verð á innfluttum vörum ekki lækkað til samræmis við gengisstyrkingu og verðþróun erlendis síðustu misserin. Á sama tíma hefur afkoma helstu verslanasamstæðna almennt verið góð.“
Með öðrum orðum: Verslunin lýgur og stelur af almenningi.
Almenningur nýtur ekki góðs af styrkingu krónunnar en greiðir það fullu verði þegar hún lækkar. Talsmenn verslunarinnar hafa lengi ólmast í bændum og innlendum matvöruframleiðendum og kennt þeim um hátt verð á matvöru. Það er önnur lygi. Sömu talsmenn hafa fullyrt að með auknum innflutningi á matvöru muni verð til almennings lækka. Það er enn ein lygin. Þeir vilja auka innflutninginn til að hirða ágóðann á kostnað almennings. Verð á matvöru lækkar ekki vegna þess að verslunin heldur verðinu uppi og hirðir sjálf ávinninginn af styrkingu krónunnar. Sama á við um skattbreytingar á matvælum.
Það þarf að taka eigendur stóru verslanakeðjanna og talsmenn verslunarinnar á teppið og láta þá svara fyrir ósannindin og skila almenningi því sem stolið hefur verið af þeim.