Það er fullkomlega eðlilegt að fyrirtæki sem það geta styrki starf stjórnmálaflokka. Reyndar má færa rök fyrir því að það sé samfélagsleg ábyrgð atvinnulífsins að styðja við stjórnmálaflokka og lýðræðislegar kosningar.
En það er ekkert eðlilegt við það að fyrirtæki styðji ákveðna stjórnmálaflokka umfram aðra. Það felst engin samfélagsleg ábyrgð í því, heldur þvert á móti er þá um að ræða greiðslur gegn gjaldi. Þingmaður framsóknarflokksins útskýrði þetta m.a. mjög vel í um ræðum á Alþingi sumarið 2013. Þá beindi þingmaðurinn orðum sínum til Ögmundar Jónassonar og sagði m.a.: „Bjóst fyrrverandi ríkisstjórn — bjóst hv. þm. Ögmundur Jónasson við því að þegar hann kæmi inn í útgerðarfyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki að menn færu að moka í hann einhverjum styrkjum eins og hann var búinn að koma fram? Ég er ekkert hissa á því að það hafi ekki verið gert miðað við hvernig hann er búinn að tala í kvöld. Datt honum virkilega í hug að hann gæti farið inn í þessa atvinnugrein og fyllt hjá sér bækur innan kvóta? Ég er ekkert hissa á því ef það gengur ekki.“
Þarna kemur það skýrt fram að þingmaður framsóknarflokksins lítur á peningastyrki sjávarútvegsins sem greiðslu gegn gjaldi í formi hagsmunagæslu.
Í því ljósi er það rétt hjá Bjarna Benediktssyni að það sé ekkert óeðlilegt við að sjávarútvegurinn styrki sjálfstæðisflokkinn umfram aðra flokka.
Frá samfélagslegu sjónarhorni er hins vegar ekkert eðlilegt við það.