Bjarni fer með rangt mál

Það er svo til allt rangt sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir um lán Seðlabankans til Kaupþings þann 6. október 2008.
Bjarni segir „...að lánið hefði ekki verið veitt til Kaupþings nema að fengnum veðum sem hafi þótt trygg á þeim tíma.“
Þetta er rangt. Það var ekkert veð tekið fyrir láninu þegar það var veitt. Það gerðist síðar. Það voru engir pappírar undirritaðir þegar lánið var veitt. Það gerðist síðar. Allar lánareglur Seðlabankans voru þverbrotnar við lánveitinguna.
Bjarni segir „...að sjálfsögðu á þingið rétt á að fá skýringar og ég tel reyndar að þær séu komnar fram.“
Það er rangt hjá Bjarna að þingið hafi fengið fullnægjandi skýringar á þessu máli, þ.á.m. á símtali Davíðs Oddssonar bankastjóra og Geirs H Haarde forsætisráðherra um lánveitinguna. Geir hefur fram til þessa komið í veg fyrir birtingu símtalsins án þess að gefa á því nokkra haldbæra skýringu.
Bjarni segir: „Hér hafi menn ekki látið stífar verklagsreglur þvælast fyrir réttum ákvörðunum eins og til dæmis í Bretlandi og Bandaríkjunum.“
Það er rétt hjá Bjarna að menn létu verklagsreglurnar ekki þvælast mikið fyrir sér þá frekar en nú. En það er rangt hjá honum að það hafi leitt til þess að réttar ákvarðanir hafi verið teknar. Hvað var annars rétt við það að lána svo til allan gjaldeyrisforða landsins til banka sem féll á hliðina tveim dögum síðar sem varð til þess að um helmingur lánsins tapaðist?
Fyrir þá sem hafa áhuga má benda á ágæta skýrslu meirihluta fjárlaganefndar um þetta mál, sem er eitt stærsta mál Hrunsins og enn óuppgert. Fulltrúar sjálfstæðisflokksins í nefndinni vildu ekki vera með.
Nema hvað?