Guðni stenst ekki skoðun

Guðni Ágústsson er fyrrverandi formaður framsóknarflokksins og margfaldur ráðherra í helmingaskiptastjórnum sjálfstæðis- og framsóknarflokksins. Hann var í forystusveit framsóknarflokksins og ríkisstjórna í nokkur kjörtímabil og bar ábyrgð sem slíkur á þeim efnahagslega óskapnaði sem búinn var til á Íslandi.
Nú reynir hann að endurskrifa söguna sér í hag. Nú segir hann að honum hafi aldrei þótt neitt eðlilegt við íslenska efnahagsundrið.
Eigum við að athuga hvort sú fullyrðing stenst sögulegan samanburð?

 Þann 2. október 2003 hélt ráðherrann Guðni Ágústsson ræðu undir stefnuræðu forsætisráðherra og sagði þá m.a. þetta um einkavæðingu og útrás bankanna: „Það ríkir mikill kraftur í íslensku viðskiptalífi. Bankar og fjármálafyrirtæki eru í útrás með starfsemi á erlendri grundu. Þetta er jákvætt.“

Í ræðu sem Guðni hélt á Alþingi þann 10. maí 2005 sagði hann m.a. þetta:
„Við framsóknarmenn komum inn í ríkisstjórn í kreppu fyrir tíu árum, hétum í raun því einu að hjól atvinnulífsins færu á fulla ferð. Það er talið að Ísland sé eitt framsæknasta land í Evrópu í dag, mikill hagvöxtur og svo langt sem horft er til næstu ára er bjart yfir Íslandi." Stuttu síðar vitnar hann til orða forseta Íslands af sama tilefni: „Ísland hefur sýnt hvernig lítið ríki getur brugðist við hnattvæðingunni með skipulögðum og árangursríkum hætti hvað efnahagslífið varðar.“ Og hælir hann sér síðan af því að hafa átt þátt í að einkavæða bankana: „Ríkisbankarnir voru seldir og þá eiga núna þúsundir hluthafa. Miklar breytingar hafa orðið á peningamarkaði launafólki til góðs. Vextir hafa loksins lækkað, lánin á löngum tíma, starfsfólki fjölgar og mikil útrás bankakerfisins og fyrirtækjanna. KB-banki og Landsbanki Íslands ásamt Íslandsbanka hafa margfaldað verðgildi sitt. Nú er KB-banki sjöundi stærsti banki Norðurlanda.“

Þann 13. mars 2007 sagði Guðni Ágústsson þetta um efnahags- og atvinnustefnu framsóknar samanborna við áherslur Vinstri grænna: „Ég trúi því að það muni renna upp ljós fyrir þjóðinni að fyrir ofan höfuðið á Vinstri grænum er eitt rautt merki. Það þýðir stopp, ekki bara stopp í stóriðjuframkvæmdum, heldur stopp á útrás fyrirtækjanna, stopp á hagsældina.“

Í enn einni ræðunni sem Guðni hélt í þinginu 2. október 2007, þá sem stjórnarandstæðingur taldi hann sig sjá óveðursský á himni og efnahagslegan óróleika sökum aðgerða fyrri stjórna, sem hann var reyndar ráðherra í. Hann hélt þó áfram að hæla sér af einkavæðingu bankanna og sagði: „Við framsóknarmenn lögðum á það áherslu í ríkisstjórn á síðustu árum að skapa ný umsvif á Íslandi með umbreytingu á ríkisrekstri í banka- og peningakerfinu, að erlend fjárfesting ætti sér stað og að íslensk fyrirtæki stækkuðu markað sinn með útrás. Íslenska útrásin er ekki talin stafa af náttúruhamförum, heldur því að hin miklu verkefni að hafa skapað tæknikunnáttu í landinu, við eigum fjármagn og öflugt fólk. Íslendingar eru eftirsóttir til að vinna með öðrum þjóðum, bæði á fjármálamörkuðum og í dýrmætum auðlindum þar sem endurnýjanleg orka er.“

Það er af mörgu að taka þegar pólitískir rugludallar eins og Guðna Ágústsson eru annars vegar.