Gerum Ísland betra

 Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifaði ágæta grein í Kjarnann (í tveimur hlutum) undir yfirskriftinn Er Ísland best í heimi?“ Því er auðvitað fljótsvarað. Ísland er ekki best í heimi frekar en önnur lönd, enda erfitt að mæla „best“ svo öllum líki.
Hvað um það.
Í þessari ágætu grein veltir Þórður Snær m.a. fyrir sér framtíðarmöguleikum ungs fólks á vinnumarkaðinum á Íslandi og kemst að þeirri niðurstöðu að þeir séu í rauninni ekki mjög miklir. Þórður Snær gerir í því sambandi að umfjöllunarefni sínu að stjórnvöld hafi í langan tíma ekki stutt við atvinnugreinar sem kalla á meiri menntun en finna má í sjávarútvegi, ferðaiðnaðinum og stóriðju. Það er margt til í þessu.
Það er þó þannig að á kjörtímabili vinstristjórnarinnar var við erfiðar aðstæður lagt af stað í leiðangur til að snúa þessu við með því að leggja áherslu á að styðja við greinar sem eru í örum vexti, skapa mörg störf og helst af öllu störf sem kalla á aukna menntun. Í því sambandi má benda á lög nr. 99/2010 og reglugerð um ívilnanir þar sem m.a. eru lagðar línur um ívilnanir og stuðning við nýfjárfestingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja, rannsóknar- og þróunarverkefni og umhverfistengdar atvinnugreinar. Það má í þessu sambandi einnig rifja upp lagasetningu um aukinn skattaafslátt til kvikmyndagerðar á Íslandi sem varð til þess að laða að erlend fyrirtæki og skapa fjölda starfa í landinu. Í ágætu samstarfi stjórnar og hluta stjórnarandstöðunnar var síðan lögð fram og samþykkt á Alþingi vel útfærð og fullfjármögnuð áætlun um fjárfestingar og stuðning við rannsóknir, tæknigreinar, skapandi greinar og grænan atvinnuveg. Um þetta var auðvitað deilt á þeim tíma eins og allt annað og sýndist sitt hverjum. Því miður var flest af þessu slegið af eftir stjórnarskiptin vorið 2013 enda aðrar áherslur í atvinnumálum hjá hægriflokkunum en vinstristjórninni. Það breytir ekki því að þessi skref voru tekin og það er vel hægt að halda áfram á þessari leið ef vilji er til þess.
Grein ritstjóra Kjarnans er ágæt áminning fyrir okkur öll um að horfa til framtíðar í atvinnumálum í stað þess að viðhalda fortíðinni og stefna að því að gera Ísland betra en það er.