Lygin mæld í ljósárum

Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður Sinnum, hélt aldeilis makalausa ræðu yfir hausamótunum á gestum síðasta ársfundar Samtaka atvinnulífsins. Þar mældi hún muninn á íslenska heilbrigðiskerfinu og því albaníska í ljósárum, síðarnefnda landinu í hag. Gallinn við þessa mælingu er hins vegar sá að hún er ómark og vitleysa frá upphafi til enda. Það er reyndar ekki langt síðan að Helgi Magnússon, þá formaður Samtaka iðnaðarins, hélt mikla lofræðu um efnahagsmálin í Rússlandi eftir heimsókn sína þangað og lagði eindregið til að Íslendingar tækju sér það til fyrirmyndar. Fólk á hægri jaðri sjálfstæðisflokksins virðist því öðru fremur sjá tækifærin þar sem eymdin er mest.

En aftur að Ásdísi Höllu og Albaníu.
Staðreyndirnar eru þær að Albanía stendur öðrum löndum langt að baki í heilbrigðismálum og heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Samanborið við lönd Evrópu og Asíu er ójöfnuður hvergi meiri í heilbrigðismálum en í Albaníu. Tekjulágir íbúar landsins eiga nær enga möguleika á heilbrigðisþjónustu í sívaxandi einkageiranum. Lyfjakostnaður sjúklinga er einn sá mesti í Evrópu og mæðradauði og ungbarnadauði óvíða hærri en í Albaníu. Aukinn kostnaður sjúklinga og erfiðara aðgengi íbúa Albaníu hefur aukið á fátækt og dregið úr velsæld í landinu.
Þrátt fyrir þetta geri ég ráð fyrir að þeir sem sátu ársfund SA hafi tekið ræðu Ásdísar Höllu vel þó svo að hún væri tóm vitleysa. Enda virðist svona della ávallt falla í góðan jarðveg hjá hægrimönnum.
Þeir sem hafa hins vegar áhuga á að kynna sér ástandið í heilbrigðismálum í Albaníu án milligöngu Ásdísar Höllu Bragadóttur geta m.a. lesið sér til um það hér, hér, hér, hér og hér svo dæmi séu tekin.
Það er óþarfi að láta ljúga að sér.

 

 

Comments

Nonni Nonnason's picture

Ásdís Halla sagði aðeins að Albanía væri ljósárum á undan okkur þegar kæmi að einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Hún sagði ekki að heilbrigðiskerfið sem slíkt væri miklu betra þar. Þetta veist þú vafalaust sjálfur. Er ekki óþarfi að ljúga að lesendum þínum?