Maður, líttu þér nær!

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, krefur Ríkisútvarpið um afsökunarbeiðni vegna fréttaflutnings. Honum er, líkt og öðrum hægrimönnum, í nöp við RÚV og hefur lagt sig fram við að knésetja það með öllum þeim ráðum sem hann kann og þekkir.
Og þau eru nokkur.
Guðlaugur Þór var heilbrigðisráðherra í átján mánaða hrunastjórn sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hann skilaði Landspítalanum gjaldþrota úr góðærinu. Hann náði að mölva heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu og hann kom heilbrigðismálum þjóðarinnar í almennt uppnám. Á aðeins átján mánuðum.
Væri það frek þjóð sem krefði slíkan þingmann um að biðjast afsökunar?
Guðlaugur Þór hafði forgöngu um að betla tugi milljóna af stórfyrirtækjum í landinu fyrir hönd sjálfstæðisflokksins. Sjálfur tók hann við tugmilljónum króna á eigin reikning vegna kosningabaráttu sinnar sem skilaði honum á endanum í ráðherrastól. Það hefur síðan komið í ljós það sem margir þóttust vita að þingmenn sjálfstæðisflokksins hika ekki við að ganga erinda fyrirtækja sem styrkja þá.
Væri það frek þjóð sem krefði slíka þingmenn um að biðjast afsökunar?
Maður, líttu þér nær!

Comments

Helgi Sigurðsson's picture

Það sem ekki hefur verið skoðað er meðferð bankanna á fyrirtækjunum sem þeir tóku yfir.þar var um mikið ógagnsæi að ræða í sumum tilfellum virtust fyrri eigendur og stjórnendur halda fyrtæjum sínum, en öðrum ekki þó svo fyrirtækin væru gjaldþrota. Bankarnir ráku mörg fyrirtæki svo árum skipti í samkeppni við þá sem tórðu af hrunið og gera enn.þannig verður til óþolandi staða fyrirtækja bæði í td verslun og verktöku þar sem bankarnir eru farnir að keppa við sína eigin viðskiptavini. Hvernig halda menn að mundi ganga fyrir verktakafyrirtæki að fá verk ábyrgð hjá bankanum sínum ef fyrirtæki í eigu eða gjörgæslu bankans ætti næstlægsta  tilboð í verk sem báðir bjóða í . Bankarnir virðast geta haldið svona rekstri endalaust áfram þrátt fyrir reglur þar um .