Það er greinilegt að þinglið sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að styðja við bakið á formanni sínum varðandi uppgjör á forgangskröfum í þrotabú gamla Landsbankans. Um það vitnar undanþágan frá gjaldeyrishöftunum sem Seðlabankinn hefur nú veitt á grunni samkomulags á milli gamla og nýja Landsbankans. Það er þar með ljóst að gjaldþrotaleið framsóknarmanna hefur orðið undir, sem betur fer.
Það ber að virða það við Bjarna Benediktsson að hann hefur fylgt þeirri áætlun sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili um afnám gjaldeyrishaftanna, þótt hann hafi talað gegn því öllu sem stjórnarandstæðingur á þeim tíma. Það má fyrirgefa honum það nú.
Nýja samkomulagið er það sjötta í röð samninga sem gerðir hafa verið um lausn Icesave málsins. Stærsti munurinn á því og fyrri samningum er að nú hefur hvorki þing né þjóð nokkra aðkomu að málinu og enn síður ábúandinn á Bessastöðum.
Ég hef samt ekki heyrt formann framsóknarflokksins tjá sig opinberlega um þetta nýja samkomulag eða undanþáguna sem gefin hefur verið til greiðslu úr þrotabúi gamla Landsbankans og reyndar ekki orðið var við að fjölmiðlar hafi gert tilraun til að fá álit hans á því.
Hvað ætli honum og öðrum framsóknarmönnum finnist?