Það er mat flestra að klaufaleg og langdregin viðbrögð Bjarna Benediktssonar, formanns sjálfstæðisflokksins, í kjölfar afsagnar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hafi opinberað betur en áður veikleika hans sem stjórnmálamanns. Afsögn hennar átti sér langan aðdraganda, ekki síst vegna ákvarðanafælni formanns flokksins við að taka á málinu. Bjarni hafði því nægan tíma til að velja arftaka Hönnu Birnu en gerði það ekki. Það hefur síðan orðið til þess að þingmenn flokksins berjast sín á milli um ráðherrastólinn lausa auk þess sem flokksfélög víðs vegar að af landinu senda áskoranir til stuðnings sínu fólki. Allt hefur þetta leitt til innanflokksdeilna sem Bjarni hefði hæglega geta komist hjá með því að skipa eftirmann Hönnu Birnu daginn sem hún hætti.
Nú heyrist sagt að úr því sem komið er fari best á því að lægja öldurnar með því að skipa utanþings -ráðherra í stað þess að gera upp á milli ákafra umsækjenda úr röðum þingmanna með tilheyrandi eftirmálum. Þar mun aðallega vera horft til Árna Sigfússonar, fyrrverandi bæjarstjóra í Reykjanesbæ ,sem er vel liðinn meðal sjálfstæðismanna auk þess að vera ágætlega menntaður og með starfsreynslu sem gæti reynst honum vel sem innanríkisráðherra.
Það skyldi þó aldrei verða?