HB-Grandi birti á dögunum uppgjör vegna þriðja ársfjórðungs yfirstandandi árs. Það er óhætt að segja að afkoma fyrirtækisins hafi verið afar góð á tímabilinu, líklega sú besta sem sést hefur til þessa. Hagnaður HB-Granda (sem gerir upp í evrum) á þriðja ársfjórðungi nam 20 milljónum evra (ríflega 3 mia.kr.) og EBITDA 26 milljónum evra (4 mia.kr.) eftir veiðigjöld, hvorki meira né minna. HB-Grandi greiddi 3,2 milljónir evra (493 m.kr.) í veiðigjöld á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Fyrirtækið hefur á fyrstu 9 mánuðum ársins greitt u.þ.b. 1 milljarð í veiðigjöld sem er um 600 m.kr. minna en á sama tími í fyrra, enda voru veiðigjöldin lækkuð eins og frægt er.
Það er afar ánægjulegt að sjá hversu góð afkoma HB-Granda er á árinu sem og fleiri fyrirtækja í sjávarútvegi. Það er einnig greinilegt að fyrirækið, eins og svo mörg önnur ,stendur vel undir þeim veiðigjöldum sem á voru lögð á sínum tíma og sú ákvörðun að lækka þau hefur verið tekin á öðrum forsendum.
Það er ágætt að hafa það í huga nú þegar sjúklingar eru farnir að ræsta sjúkrahúsin vegna peningaskorts.