Kjarninn segir frá því í gær að það gæti endað þannig að Ísland stórgræddi á Hruninu og fengi jafnvel 3-500 milljarða króna í kassann með því að leggja sérstakan skatt á eignir erlendra aðila í þrotabúum gömlu föllnu bankanna. Fari svo yrði það mikill pólitískur sigur fyrir formenn hægriflokkanna sem myndi fylgja þeim út lífið, að mati Kjarnans.
Skoðum þetta aðeins betur.
Til að geta lagt útgönguskatt á eignir erlendra aðila í þrotabú bankanna þarf fyrst að festa þá með eignir sínar hér á landi, þ.e. setja á þá bönd eða höft. Það var gert með sérstakri lagasetningu árið 2011 og það er á grunni þeirra laga sem slík skattlagning væri möguleg. Formenn hægriflokkanna, báðir tveir, ásamt allri stjórnarandstöðunni, lögðust hins vegar gegn þessari lagasetningu og greiddu atkvæði á móti því að lögin yrðu sett. Í nefndaráliti sjálfstæðismanna var meira að segja tekið svo til orða að með lagasetningunni gæti verið „… um ein alvarlegustu hagstjórnarmistök í gjörvallri Íslandssögunni að ræða.“ Hvorki meira né minna.
Hugmyndin að útgönguskattinum var lögð fram í áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna þetta sama ár, þ.e. 2011. Um það má lesa í skýrslu Seðlabankans frá árinu 2011 um áætlun um losun haftanna (sjá bls. 5). Og meðan ég man – það er enn unnið eftir þessari áætlun þótt komið sé fram undir mitt kjörtímabil þeirra sem lögðust gegn henni á sínum tíma.
Það er því ekkert nýtt eða frumlegt við tillögur þeirra félaga, Bjarna og Sigmundar, enda eru þær hvorki nýjar né frá þeim komnar. Þvert á móti virðast þeir sem betur fer ætla að fylgja í einu og öllu áætluninni sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili og éta ofan í sig það sem þeir sögðu þá. Ef þeirra sjónarmið hefðu þá orðið ofan á, væri ekki einu sinni verið að ræða hugmyndir um sérstaka skattlagningu á þrotabú föllnu bankanna.
Það eina nýja í þessu er að Bjarni virðist hafa skipt um skoðun á því að ekki sé hægt að beita skattlagningu út úr kreppunni.
En það er önnur saga.