Blússandi góður gangur

Ný skýrsla Íslandsbanka um sjávarútveginn sýnir enn og aftur hversu vel og stöndug greinin er orðin þrátt fyrir að öðru sé haldið fram. Samkvæmt skýrslunni námu tekjur sjávarútvegsins 263 milljörðum á árinu 2013 og EBITDA nam 62 milljörðum. Arðgreiðslur á árinu námu 12 milljörðum króna og höfðu aukist um 87% á milli ára. Þrátt fyrir barlóminn og að sjávarútvegsfyrirtækin kveinkuðu sér undan veiðigjöldum var fjárfesting í sjávarútvegi á síðasta ári 22% yfir meðalfjárfestingu síðustu tíu ára þar á undan. Margt annað fróðlegt má lesa í þessari skýrslu um þessa stóru og mikilvægu atvinnugrein.
Íslandsbanki vann sína skýrslu í samvinnu við Deloitte en það félag hefur unnið mjög þétt með útgerðarmönnum undanfarin ár. Þessar tölur fyrir árið 2013 eru því væntanlega unnar af Deloitte og ber að taka sem slíkar. Opinberu tölurnar um rekstur og efnahag sjávarútvegsins sem Hagstofan hefur tekið saman um árabil eru ekki enn komnar fram fyrir árið 2013 en eru væntanlegar í lok ársins.
Einnig var sagt frá því í Viðskiptablaðinu í gær að hagnaður Skinneyjar-Þinganess hafi numið 3,6 milljörðum á síðasta ári sem hlýtur að teljast afar gott. Fyrirtækið keypti eigin bréf fyrir 1.000 milljónir (sem líta má á sem ígildi arðgreiðslu) og greiddi eigendum sínum 600 milljónir í arð á árinu sem telst líklega hóflegt í samhengi hlutanna. Þess má geta að Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður framsóknarflokksins, er einn hluthafa í Skinney- Þinganes. Miðað við eignarhlutinn (2,84%) hefur hann fengið um 17 verðskuldaðar milljónir í arð karlinn og gæti átt von á meiru í framtíðinni.
Gaman að því.