Fá hugtök hafa verið misnotuð jafn rækilega á undanförnum árum og „heimilin í landinu“. Hvað er átt við með „heimilin í landinu“? Eru það öll heimili sem haldin eru af öllum stærðum og gerðum í öllum sínum fjölbreytileika eða bara sum?
Heimili er samfélag fólks, einstaklinga, hjóna, sambúðarfólks, foreldra og barna þar sem allir deila löngunum sínum og þrám, tilfinningum og ábyrgð. Eða eitthvað í þessa veruna. Heimilisfólk (fjölskylda) er hvert öðru skuldbundið og sýnir hvert öðru trúnað og vinskap.
Til að heimili þrífist vel þarf ytra umhverfi að vera því hliðhollt. Góður aðgangur að velferðar- og heilbrigðiskerfinu, aðgangur að menntun þarf að vera boðlegur, sem og tómstundir og menningarlíf. Laun og vinnutími þurfa að vera þannig að fjölskylda geti átt gæðatíma saman á hverjum einasta degi.
Stjórnarflokkarnir virðast líta á „heimilin í landinu“ sem efnahagseiningu. Að þeirra mati skiptir öllu og einu að þau Debet og Kredit séu ávallt með fulla heilsu í heimilisbókhaldinu og annað sé aukaatriði. Þeir telja að með því að lækka greiðslubyrði hjá vel innan við helmingi heimila í landinu um sem nemur 6-8 þúsund krónum á mánuði hafi heimilin í landinu fengið leiðréttingu vegna Hrunsins. Á sama tíma eru sömu stjórnvöld að skerða menntun ungs fólks og fullorðinna. Þau eru að mylja heilbrigðiskerfið undir fótum sínum. Þau eru að skerða valfrelsi heimila til að hafa áhrif á eigin framtíð og þau eru að auka greiðslubyrði þeirra við kaup á nauðsynjum sem hvert heimili þarf á að halda, þrátt fyrir fyrri orð um slíkt.
Í stuttu máli eru stjórnvöld að grafa jafnt og þétt undan heimilum landsins með groddaralegum og vanhugsuðum aðgerðum sínum á flestum þeim sviðum sem eru fjölskyldum og heimilum mikilvægust.
Heimilin í landinu er ekki bara bókhaldsleg stærð sem þarf að stemma af með leiðréttingum af og til.