Bjarni einn og yfirgefinn

Formaður sjálfstæðisflokksins var og er, eins og flestir aðrir, andsnúinn stóru millifærslunni. En hann varð undir í samstarfi stjórnarflokkanna í því máli. Bjarni Benediktsson hefur í samstarfi við Seðlabankann ítrekað lagt fram tillögu að uppgjöri á milli gamla og nýja Landsbankans sem er nauðsynleg forsenda þess að afnema gjaldeyrishöftin. Enn hefur hann ekki haft erindi sem erfiði gegn framsóknarflokknum hvað þetta varðar. Það gæti þó breyst á morgun. Formaður sjálfstæðisflokksins hefur lagt til að skattur á matvæli verði hækkaður. Það er í raun eitt af stærstu málum í fjárlagafrumvarpi hans fyrir næsta ár. Framsóknarmenn styðja það ekki. Þingmenn sjálfstæðisflokksins virðast hikandi að taka málstað formannsins út á við, hvort sem er gagnvart framsóknarflokknum eða eigin innanflokksmeinum.
Bjarni Benediktsson er sagður vera jarðtenging ríkisstjórnarinnar, kjölfesta skynsemi og góðra stjórnarhátta á hennar vegum. Það kann að vera sannleikskorn í því. En hann er aleinn og getur að því er virðist hvorki treyst á eigið þinglið né bakland.
Það gengur enginn fram fyrir skjöldu og tekur slaginn með formanninum.