Hægriflokkarnir fást ekki við nein vandamál sambærileg þeim sem þurfti að takast á við fyrstu árin eftir Hrun. Verkefni þeirra eru aðeins brot af því sem unnið var upp í hendurnar á þeim á árabilinu 2009 til 2013. Eina sem þeir þurfa að gera er að halda áfram þar sem frá var horfið og gæta þess að klúðra ekki neinu. En það virðist ætla að verða þeim ofraun.
Algjört upplausnarástand ríkir á Íslandi. Sjúkir fá aðeins lágmarksaðhlynningu og læknisaðgerðum á sjúkrahúsum er haldið í lágmarki. Vegna stefnu stjórnvalda er verið að reka nemendur úr framhaldsskólum og segja upp kennurum. Tónlistarkennarar eru í verkfalli. Háskólakennarar stefna í verkfall. Stéttarfélög innan ASÍ boða harðar aðgerðir gegn stjórnvöldum á næstu mánuðum. Sjómenn eru enn samningslausir þrátt fyrir stórfellda lækkun veiðigjalds sem þeir mótmæltu við hlið útgerðarmanna á Austurvelli sumarið 2012. Ráðherrar ljúga að þingi og þjóð án þess að axla ábyrgð. Gjaldeyrishöftin sem átti að vera svo létt að afnema eru komin til að vera. Svo mætti lengi áfram telja.
Ríkisstjórn hægrimanna er ekki í neinu standi til að stjórna landinu. Hún er sjálfri sér næst verst.
Verst er hún þjóðinni.