Vonir og væntingar

Svokölluð væntingarvísitala „… gefur til kynna framtíðarvæntingar hvað varðar efnahagsmál, atvinnumál og væntar tekjur íslenskra heimila“, eins og segir á heimasíðu Capacent. Fyrirtækið mælir væntingar fólks með því að spyrja það hvaða mat það leggi á núverandi efnahagsaðstæður og ástand í atvinnumálum, hvaða væntingar það hafi til atvinnumála á næstu mánuðum og hvernig það telji að heimilistekjur þess muni þróast á næsta hálfa ári.
Svör fólks við þessum spurningum gefa til kynna hvaða væntingar það hafi til framtíðarinnar. Samkvæmt nýjustu mælingum á væntingum fólks virðast þeir tekjuhæstu gera sér meiri vonir um betri framtíð en hinir tekjuminni. Lengst af hafa væntingar ólíkra tekjuhópa hvað þetta varðar fylgst að en nú skilur á milli. Það merkilega er að væntingar tekjuhæsta hópsins til framtíðarinnar jókst í kjölfar kosninganna 2013. Frá sama tíma hefur hins vegar dregið úr væntingum hinna.
Hvernig ætli standi á því?