Heldur finnst mér sá ágæti stjórnmálafræðingur Ólafur Harðarson komast létt frá þessu viðtali. Undir lok þess gefur hann í skyn að gagnrýni á stjórn hægriflokkanna sé innihaldslaus þar sem „menn skipti alveg um rullur“ og segi„ allt annað í stjórn en stjórnarandstöðu.“ Um þetta nefnir Ólafur þó engin sérstök dæmi.
Ég man ekki til þess að þau okkar sem studdu og stóðu að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hafi skipt um skoðun eða fari með aðra rullu núna um pólitísk málefni en áður. Mér finnst þvert á móti gagnrýni á stjórnarstefnu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vera yfir höfuð málefnaleg og byggð góðum rökum. Enda eru skýr skil á milli þessara tveggja ríkisstjórna og stefnu þeirra eins og allir sjá.
Ég vildi gjarnan fá frekari rök frá Ólafi Harðarsyni og skýr dæmi sem stutt gætu þessar fullyrðingar.