Það vekur athygli að nýlegt uppgjör margra af stærstu fyrirtækjum landsins er gott. Þau virðast græða á tá og fingri sem aldrei fyrr sem er auðvitað gott og blessað fyrir skulduga þjóð og þjóðhagslega afar mikilvægt að fyrirtæki gangi vel. Icelandair, lykilfyrirtæki landsins í ferðaþjónustu, skilaði frábæru uppgjöri í vikunni. Sama má segja um Össur og Marel – þau virðast plumma sig vel þrátt fyrir að efnahagslífið víða í heiminum sé sveiflukennt samkvæmt fréttum. Ekki má heldur gleyma smásölurisanum Högum sem skilar gríðarlega góðri afkomu. Vonandi fá neytendur að njóta þess í hagstæðu vöruverði – Hagar eru jú í eigu fólksins í landinu í gegnum lífeyrissjóðina! Það er þó ekki víst þar sem helsti keppinauturinn, Kaupás, er að stórum hluta í eigu sömu aðila – lífeyrissjóðanna. Mann grunar að samkeppnin þeirra á milli sé í raun ekkert sérstaklega mikil eða að grimmt sé barist um kúnnana með lágu vöruverði.
Bankar og tryggingarfélög græða einnig sem aldrei fyrr. Að vísu var grunnafkoma Landsbankans ekkert sérstaklega góð á fyrri hluta ársins og er það áhyggjuefni fyrir ríkissjóð.
Og loks má svo benda á að bullandi góðæri hefur verið í sjávarútvegi á undanförnum árum. Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin skila hvert af öðru frábærri afkomu en þrátt fyrir það ákveður ríkisstjórnin að lækka veiðigjöld á þau af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.
Framundan eru kjarasamningar og fátt sem bendir til annars en að veturinn verði átakasamur á þeim vettvangi. Gott uppgjör stóru og sterku fyrirtækjanna í landinu með tilheyrandi skatttekjum fyrir ríkissjóð ætti hins vegar að vekja vonir um að venjulegt launafólk á almenna og opinbera markaðnum muni fá sanngjarna hlutdeild í velgengninni í formi ásættanlegra launahækkana. Eða er til of mikils mælst, sé tekið mið af brauðmolakenningu frjálshyggjumanna, að almenningur í landinu muni líka njóta þess þegar hinir stóru og sterku græða sem aldrei fyrr?
Munu molarnir skila sér?