Það eru gríðarleg átök á milli formanna stjórnarflokkanna um afnám haftanna. Eitt stærsta skrefið í þá átt er að samkomulag náist við stjórnvöld um skuldabréf á milli þrotabús gamla Landsbankans og þess nýja. Í grunninn snýst deila þeirra félaga um hvort semja eigi um uppgjör þrotabúa bankanna, eins og Bjarni Benediktsson og Seðlabankinn vilja gera, eða fara svo kallaða gjaldþrotaleið sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vill fara. Fram til þessa hefur Bjarni orðið undir í baráttunni við Sigmund Davíð en það gæti breyst í dag þegar lokafrestur rennur út um afgreiðslu málsins af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Þetta mál mun vera lítið rætt í þingflokki sjálfstæðisflokksins sem treystir sínum formanni til að ljúka því. Eftir því sem best er vitað hefur það hins vegar ekkert verið rætt í þingflokki framsóknar sem er hreint ótrúlegt miðað við um hve stórt mál er að ræða. Formaður flokksins heldur málinu hins vegar mjög þétt að sér og sínu nánasta samstarfsfólki – sem allt er utan þingflokksins.
Það hefur vakið athygli að enginn þingmaður stjórnarflokkanna hefur tjáð sig um þetta mál í vikunni. Það virðist ríkja algjört þagnarbindindi af hálfu stjórnarliða um þetta stóra mál, eru þó margir þar málglaðir að upplagi. Það gerist ekki nema vegna þess að stjórnarliðum hafa verið gefnar ordrur um að hafa sig hæga, sem aftur vitnar um hvað málið er eldfimt.
Það mun svo væntanlega skýrast á morgun hvort harðlínuöflin í framsóknarflokknum ná að beygja formann sjálfstæðisflokksins endanlega undir sig eða hvort hann muni ganga til flokksráðsfundar á morgun eftir að hafa unnið þennan slag.
Hvítur á leik ...