Illugi Gunnarsson ráðherra segist þakka guði fyrir það á degi hverjum að við (Íslendingar) hefðum sloppið við að borga Icesave. Þetta kom fram í einkaviðtali við hann á Bylgjunni á sunnudaginn (12:57). Ekki veit ég hvaða guð það er sem Illugi beinir þakklæti sínu til enda skiptir það ekki neinu máli.
Fyrsta greiðsla úr þrotabúi gamla Landsbankans til forgangskröfuhafa (Icesave) var í desember 2011 og nam um 410 milljörðum króna.
Önnur greiðsla var innt af hendi í maí 2012 um 172 milljarðar króna.
Þriðja greiðsla fór fram í október 2012, 80 milljarðar króna. Með þessari greiðslu höfðu forgangskröfuhafar fengið upphæð lágmarkstryggingarinnar á hvern reikning í hendur.
Fjórða greiðslan var svo greidd forgangskröfuhöfum í september 2013, samtals um 67 milljarðar króna.
Samtals er því búið að greiða þeim sem eiga forgang í þrotabú gamla bankans (Icesave) um 730 milljarða króna af kröfum þeirra. Eftirstöðvar forgangskrafna (Icesave) voru um síðustu áramót um 610 milljarðar og verða greiddar m.a. með skuldabréfi sem þegar hefur verið samið um.
Um allt þetta má lesa m.a. hér (glæra 9) fyrir þá sem hafa áhuga á því. Illugi Gunnarsson ætti svo að draga úr bænum sínum og þökkum til guðanna af þessu tilefni.
Þeir láta ekki plata sig.