Ætli þau skammist sín ekki?

Um mitt ár 2010 voru samþykkt lög á Alþingi um byggingu nýs Landspítala. Lögin voru samþykkt með 45 samhljóða atkvæðum. Fjórir þingmenn sátu hjá, þau Eygló Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson, Jón Gunnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson. Lögin gerðu ráð fyrir því að sjúkrahúsið yrði byggt og fjármagnað af öðrum en ríkinu sem síðan myndi leigja það. Þetta gekk ekki eftir vegna áhugaleysis þeirra sem höfðu gert sig líkleg til að leggja peninga í verkefnið.
Í mars 2013 voru gerðar breytingar á lögunum í þá veru að um opinbera fjármögnun yrði að ræða og byggingin því fjármögnuð af ríkissjóði. Þessi lög voru samþykkt af meirihluta þingmanna, gegn þremur atkvæðum þeirra Höskuldar Þórhallssonar, Margrétar Tryggvadóttur og Ragnheiðar E. Árnadóttur. Ellefu þingmenn treystu sér ekki til að styðja málið og sátu hjá. Það voru þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Bjarnason, Lilja Mósesdóttir, Pétur H. Blöndal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.
Lögin sem samþykkt voru í mars 2013 eru enn í gildi. Að kröfu framsóknarflokksins var hins vegar fallið frá því að byggja nýtt sjúkrahús  eftir kosningarnar 2013 og þar við situr.
Hafi þeir skömm fyrir sem hafa lagt á sig að koma í veg fyrir að þetta mikilvæga mál nái fram að ganga
Ef þeir kunna þá að skammast sín.