Enn víkur Geir sér undan ábyrgð

Um þetta má eitt og annað segja.
Í fyrsta lagi: Það er rangt hjá Geir H. Haarde að Seðlabankinn vilji halda leynd yfir símtali hans og Davíðs um 500 milljón evra lán (78 milljarða króna) til Kaupþings. Þvert á móti vill Seðlabankinn upplýsa um þessi samskipti. Það vill Geir hins vegar ekki. Það getur hann gert í krafti þess að Davíð sagði honum ekki frá því að hann væri að hljóðrita símtalið.
Í öðru lagi: Geir viðurkennir að hafa „verið því samþykkur að þetta lán yrði veitt - það hefði verið lokatilraun til að bjarga Kaupþingi, stærsta banka landsins á þeim tíma.“ Þar með liggur það fyrir að Davíð hafi viljað fá samþykki Geirs fyrir lánveitingunni og að það voru þeir félagar, Davíð og Geir, sem tóku ákvörðunina um lánið. Það hafa þeir væntanlega gert með einhverjar upplýsingar í höndunum um a) hvernig láninu yrði varið og b) hvernig það yrði endurgreitt. Það væri vel þess virði að Geir myndi upplýsa okkur um það. En það vill hann ekki.
Í þriðja lagi: Hvers vegna þurfti seðlabankastjóri að fá samþykki forsætisráðherra fyrir lánveitingunni?
Í fjórða lagi: Lánið var greitt út í hádeginu þann 6. október 2008, án veða og þvert gegn öllum lánareglum Seðlabankans. Lánið átti að endurgreiðast með 9,4% vöxtum fjórum dögum síðar, 10. október. Miðað við það hljóta þeir félagar, Geir og Davíð, að hafa tekið ákvörðun um lánið með traust gögn í höndunum.
Af hverju vill Geir ekki axla ábyrgð og segja frá? Það er aum afstaða að bera því við að hann sé „ekki hrifinn af því að samtöl við forsætisráðherra fari í þann farveg“ – hvað sem það nú þýðir.
Mér finnst ekki farið fram á mikið að Geir gefi skýringar á reikningum sem hann sendir okkur.
Því það erum við, þjóðin, sem borgum þetta eins og allt annað.