Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum, hefur vakið verðskuldaða athygli með pólitískri framgöngu sinni að undanförnu. Hann þykir skeleggur og brattur talsmaður Eyjamanna, óhræddur við að gagnrýna sitt eigið pólitíska lið ef því er að skipta og honum finnst á Vestmannaeyjar hallað. Hann er auk þess einn af fáum sjálfstæðismönnum sem bit þykir í og hann ver óhikað stefnu flokksins í grunninn á meðan forystan á fullt í fangi með að verjast. Kosningasigur sjálfstæðismanna í Eyjum í vor var fyrst og síðast persónulegur kosningasigur Elliða sem kom honum í þá stöðu að geta gert sig enn breiðari en áður á vettvangi stjórnmálanna.
Af því hafa einhverjir nokkrar áhyggjur.
Jafnvel þó Bjarni Benediktsson þyki hafa styrkt stöðu sína sem formaður sjálfstæðisflokksins stendur hann þar langt því frá traustum fótum. Flokkurinn virðist vera búinn að festa sig í u.þ.b. fjórðungs fylgi sem er langt undir fylgi flokksins í gegnum tíðina. Samstarfið við ólíkindatólin í framsóknarflokknum hefur heldur ekki verið til að auka hróður Bjarna eða flokksins í heild.
Varaformennirnir tveir eru vægast sagt daprir. Annar þeirra er Hanna Birna Kristjánsdóttir og þarf ekki að fara mörgum orðum um hennar stöðu. Hinn er Kristján Þór Júlíusson sem þykir afar litlaus stjórnmálamaður sem hafi komið litlu í verk sem ráðherra auk þess að eiga í illdeilum við flesta innan heilbrigðisgeirans.
Jafnvel þótt ólíklegt megi teljast að Elliði Vignisson muni sækjast eftir formennsku í sjálfstæðisflokknum í augnablikinu er staða varaformannanna tveggja þannig að hann gæti fellt þau bæði ef hann hefði áhuga á því.
Hann þyrfti ekki einu sinni að mæta á staðinn, gæti tekið þetta í gegnum Skype frá Eyjum.