Vorið 2009 komst upp um stórfelld styrkjamál stórfyrirtækja til sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans. Í stórum dráttum snerist málið um tvo stóra styrki til flokksins árið 2006 upp á kr. 55 milljónir á þávirði. Annars vegar var um styrk frá Landsbankanum gamla upp á 25 milljónir að ræða og hins vegar frá FL Group upp á 30 milljónir. Guðlaugur Þór Þórðarson sem hafði sjálfur þegið háar upphæðir í eigin sjóði frá ýmsum aðilum á þessum tíma var sagður hafa haft milligöngu um stóru styrkina til Flokksins. Ábyrgðinni var hins vegar á endanum velt yfir á þáverandi formann flokksins, Geir H Haarde, sem lét sig hafa það eins og margt annað. Nema hvað?
Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, hefur margsinnis lýst því yfir að styrkirnir verði endurgreiddir. Það gerði hann m.a. í flokksblaði sjálfstæðismanna 2009 og einnig á Alþingi um málið. Þar kom fram að styrkirnir yrðu endurgreiddir á sjö árum, án vaxta og verðbóta.
Á fundi flokksráðs sjálfstæðisflokksins árið 2010 sagði Bjarni Benediktsson eftirfarandi um málið: „Þegar ég fékk vitneskju um þessa styrki tók ég strax þá ákvörðun að þeim skyldi skilað. Af sumum var þessi ákvörðun gagnrýnd en hún var rétt. Og ég vona að þið séuð sammála mér um að við viljum ekki vera í flokki sem ætlar sér að komast upp með hluti. Við ætlum að vera í flokki sem gerir hlutina rétt.“
Nú verðist „rétt“ vera orðið teygjanlegt hugtak. Flokkurinn neitar nú að svara fyrir styrkina, hvað mikið hafi verið greitt og hvort greitt hafi verið samkvæmt áætlun. Bókhaldið virðist aftur vera komið niður í gömlu myrkrakompurnar í Valhöll.
Það er alveg ljóst að ef allt væri með felldu varðandi endurgreiðslur sjálfstæðisflokksins hefði því verið svarað vel og skilmerkilega.
En það er ekki gert og það er væntanlega aðeins ein ástæða fyrir því.