Ég þekki engan betur þess verðugan að vera talinn „framúrskarandi fiskimaður“ en Víði Jónsson skipstjóra á Kleifabergi ER-70. Það er ekki öllum gefið að fiska mikið og standa öðrum framar í veiðum, vinnslu og verðmætasköpun eins og Víðir hefur afrekað áratugum saman. Jafnvel þó svo að þakka megi samstarfi áhafnar, útgerðar og skipstjóra þann góða árangur sem skipstjórar ná oft á tíðum skal það aldrei af Víði Jónssyni tekið að hann er og hefur verið fremstur íslenskra fiskimanna um langt árabil. Hann er auk þess sterkur karakter og hefur alltaf staðið með sínu og sínum þegar á hefur reynt. Mættu margir taka hann sér til fyrirmyndar að því leyti til. Þar fyrir utan er hann, eins og aðrir góðir drengir, prýddur ótal góðum kostum – og göllum – sem hafa gert hann að því sem hann er, sem einstakling og afburða fiskimann.
Hann lengi lifi (og fiski)!