Líklega er ég að misskilja ...

Alþingi samþykkti í vikunni breytingu á lögum um nauðungarsölu. Lögin fela í sér að sýslumönnum beri að fresta nauðungarsölu hjá heimili fólks sem „sótt hefur um leiðréttingu fasteignaveðlána samkvæmt lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána“, eins og segir í lögunum.
Í fyrsta lagi er afa ólíklegt að millifærslan muni breyta nokkru fyrir þá sem eru með heimili sín í nauðungarsölu í dag. Stærsti hluti peninganna mun fara til annarra þjóðfélagshópa sem ekki eiga  á hættu að missa húsnæði sitt. Lagasetningin mun því lítið ef nokkuð gera fyrir þann hóp sem hún á þó að ná til nema vekja óraunhæfar væntingar.
Hvað um það.
Það var á sínum tíma talsverð umræða um vernd persónupplýsinga vegna millifærslunnar enda um gríðarlega mikla upplýsingaöflun að ræða vegna hennar. Þingmönnum þótti þá mörgum að gæta þyrfti vel að því að vernda einstaklinga og fjölskyldur fyrir því að upplýsingar um hagi þeirra yrðu gerðar opinberar með einum eða öðrum hætti. Nú virðist þingið hins vegar hafa skipt um skoðun með því að setja það sem skilyrði fyrir frestun nauðungarsölu að fólk upplýsi um hvort það hafi sótt um peninga í stóru millifærsluna. Sem er talsverð yfirlýsing að gefa fyrir marga og er alls ekki í anda þess trúnaðar sem átti að verða um persónulegar upplýsingar þeirra sem ákváðu að sækja í millifærsluna og jafnvel annarra í leiðinni.
Nema ég sé að misskilja þetta.
Sem er ekki ólíklegt.