Kröfugerða- og klúðurkynslóðin?

Getur það verið að við séum kynslóðin sem klúðraði því sem þau sem á undan okkur komu trúðu okkur fyrir og settu í hendurnar á okkur?
Ekki voru það við sem lögðum t.d. grunn að heilbrigðiskerfinu eða byggingu sjúkrahúsa – eða hvað? Flest eru þau frá fyrri hluta síðustu aldar, sum byggð fyrir peninga frá útlöndum og að frumkvæði ýmissa hópa samfélagsins sem skynjuðu þörfina betur en stjórnvöld þess tíma.

Þetta eru a.m.k. vangaveltur eins lesanda þessarar ágætu síðu. Hann bendir á Landakotsspítala sem byggður var árið 1902 að frumkvæði St. Jósefssystra og að mestu fyrir söfnunarfé frá Evrópu. Kleppsspítalinn tók til starfa 1907, stækkaður 1929 og svo aftur 1940. Vífilsstaðir tóku til starfa 1910 og runnu saman við Landspítalann 1973. Landspítalinn sjálfur sem í grunninn er frá 1930 og er að grotna niður í höndunum á okkur. Sama á við um Borgarspítalann sem var formlega opnaður árið 1967 fyrir nærri hálfri öld.
Þessi mikla uppbygging (og miklu meira) fór fram um eða fyrir miðja síðustu öld, oft af litlum efnum.
Svo komum við.
Kröfugerða- og klúðurkynslóðin sem vill ekki læra af fortíðinni og krefst framtíðar án fyrirhafnar.
Eða hvað?