Valhöll er sem pólitískur vígvöllur

Átökin í sjálfstæðisflokknum í kringum Lekamálið eru að verða með þeim ljótari sem við höfum orðið vitni að í íslenskum stjórnmálum. Látum það vera að ráðherrann hafi reynt að koma sér undan málinu með því að vísa á pólitíska starfsmenn sína. Látum það vera að ráðherrann hafi sakað Rauða krossinn um að leka gögnum. Látum það vera að ráðherrann hafi reynt að hafa áhrif á rannsókn málsins með óeðlilegum hætti. Látum það vera þó ráðherrann hafi margsinnis sagt þingi og þjóð ósatt um málið. Allt er þetta þó eitt og sér og samanlagt ráðherranum til mikillar skammar. En látum það samt vera – í bili.
En núna, þegar pólitískir starfsmenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eru farnir að benda á ræstingafólk innanríkisráðuneytisins sem hugsanlega sökudólga, þá er einfaldlega of langt gengið. Og núna þegar bakland Hönnu Birnu á Viðskiptablaðinu er farið að draga ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins og venslafólk hennar í málið, þá er of langt gengið. Vörnin er brostin. Það stendur ekki steinn yfir steini í málatilbúnaði ráðherrans og stuðningsfólks hennar.
Það er aðeins einn maður sem getur stöðvað þessa vitleysu. Það er formaður sjálfstæðisflokksins. En hann vill það ekki. Vandræðagangur Hönnu Birnu hefur styrkt stöðu Bjarna innan flokks og í ríkisstjórn og veitti víst ekki af.
En nú finnst mörgum sjálfstæðismanninum nóg komið. Þeim fjölgar hratt sem vilja að Bjarni höggvi á hnútinn og víki Hönnu Birnu úr ríkisstjórninni. Nú sé rétti tíminn til þess. Hann muni styrkja stöðu sína enn frekar með því að ljúka málinu núna og úr þessu gæti málið farið að snúast í höndunum á honum. Það er hart tekist á um þetta í sjálfstæðisflokknum þessa dagana og höggvið á bæði borð.

Á meðan engist Hanna Birna Kristjánsdóttir niðurlægð og yfirgefin af sínu eigin fólki.