Við erum fljót að gleyma

Við erum flest frekar gleymin. Sum okkar kjósa reyndar að gleyma frekar en að muna. Fæstir muna t.d. hvað skattkerfið á Íslandi var ranglátt og lélegt fyrir Hrun.
Tökum tvö dæmi:
1. Þegar allt hrundi í hausinn á okkur haustið 2008 var tekjuskattur á fyrirtæki aðeins 10%. Jafnvel eftir að Vinstristjórnin hafði tvöfaldaði skattinn var hann eftir sem áður með því lægsta sem þekktist. Fyrirtæki á Íslandi greiddu nánast engan tekjuskatt á þessum tíma. Árið 2009 greiddi öll útgerðin í landinu innan við 1 mia. króna í tekjuskatt. Á því sama ári greiddu fyrirtæki í hugbúnaði janf mikið og öll álverin samanlagt í tekjuskatt.
2. Fjármagnstekjuskattur var líka 10% á þessum árum. Það þýddi að þeir sem lifðu á fjármagnstekjum greiddu aðeins 10% í tekjuskatt og ekkert í útsvar til sveitarfélaga. Það vorum við hin, launamennirnir, sem sáum því fólki fyrir nauðsynlegri þjónustu með skattgreiðslum og útsvari af launum okkar. Vinstristjórnin tvöfaldaði skatt á fjármagnstekjur sem nálguðust eftir það að standast samanburð við önnur lönd.
Hægrimenn froðufelldu af bræði yfir þeim breytingum sem Vinstristjórnin gerði á skattkerfinu. Þeir litu á þær sem persónulegar ofsóknir og líktu þeim við galdrabrennur fyrri alda. Hvorki meira né minna. Þeir litu ekki á það sem sitt hlutverk að leggja sitt af mörkum til þjóðar í miklum vanda.
Og gera ekki enn.