Engin geimvísindi

Fjárlagafrumvarp er stefnuyfirlýsing hverrar ríkisstjórnar. Í frumvarpi til fjárlaga er ekki aðeins mörkuð stefna þess fjárlagaárs sem það á að ná til heldur og ekki síður er það stefnumótandi til lengri tíma.
Þannig fólu fjárlagafrumvörp vinstristjórnarinnar í sér mikla stefnubreytingu frá því sem verið hafði áratugina þar á undan. Það kom m.a.  fram í því hvernig  tekna var aflað og hvernig aðhaldi í rekstri var hagað. Þunginn af skattheimtunni var færður frá þeim sem minnst höfðu og hafa á milli handanna og minnst eiga yfir á eignameira fólk, tekjuhærri hópa og fyrirtæki. Fjárlagagati Hrunsins var lokað með því að afla nýrra tekna og draga saman í útgjöldum, nánast 50/50.
Tvö fyrstu fjárlagafrumvörp hægristjórnarinnar snúast aðallega um að vinda ofan af þeim breytingum sem gerðar höfðu verið á undanförnum árum. Þannig hefur ríkisstjórn hægrimanna t.d. ákveðið að afþakka tekjur upp á um 100 milljarða króna á kjörtímabilinu, tekjur sem annars hefðu komið frá efnameira fólki og fyrirtækjum. Til að mæta því er skorið niður á bæði borð og lagt af stað með sölu ríkiseigna til að eiga fyrir rekstri ársins. Af þessum sökum er nú verið að skerða réttindi atvinnulausra, framlög til menntakerfisins, löggæslunnar og velferðarkerfisins. Þunginn af rekstri ríkisins hefur því aftur verið færður á herðar hinna sem minna hafa og minna eiga.

Þetta eru engin geimvísindi og hefur verið gert áður með hræðilegum afleiðingum.