Hægrimenn hafa alltaf haft horn í síðu þróunaraðstoðar. Þeir segjast samt alltaf vilja gera vel í þeim efnum og hafa undirgengist alls konar skuldbindingar þar að lútandi. En þegar á hólminn er komið svíkja þeir það eins og annað.
Á síðasta kjörtímabili samþykkti Alþingi metnaðarfulla áætlun um þróunaraðstoð. Áætlunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum – gegn einu. Þessi eini, sem lítur á þróunaraðstoð sem gæluverkefni vinstrimanna, hafði þó kjark til að fylgja samvisku sinni, ólíkt hinum sem síðar opinberuðu raunverulegan vilja sinn.
Hægrimenn hafa hins vegar alltaf verið veikir fyrir hernaði og stríðsrekstri. Framkvæmdastjóri NATO þurfti t.d. ekki nema rétt að orða aukin framlög til bandalagsins við utanríkisráðherra á dögunum til að sá síðarnefndi lýsti yfir stuðningi sínum við það. Auðvitað verður að hlusta þegar NATO vill meiri peninga, sagði ráðherrann ábúðarfullur. Forsætisráðherrann tók svo skrefið til fulls og lofaði klúbbnum fullri hollustu, auknum fjárframlögum og meiri þátttöku í hernaðarbröltinu. Einhvers staðar þarf svo að fá peninga í þetta gæluverkefni hægrimanna.
Við vitum hvar það verður.