Góð afkoma hjá Granda - veiðigöld lækka um meira en helming

HB-Grandi hf hefur birt uppgjör sitt vegna fyrri hluta ársins 2014. Í stuttu máli má segja að fyrirtækið gangi afar vel og skili eigendum sínum góðum arði. HB-Grandi gerir reikninga sína í evrum eins og mörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki sem sjá hag sínum betur borgið með því en að gera upp í krónum.
EBITDA á fyrri hluta ársins var 18,6 milljónir evra eða um 2,9 mia.kr. og hefur batnað eftir því sem liðið hefur á árið eins og sjá má á uppjöri annars fjórðungs ársins. Flest bendir því til þess að afkoma fyrirtækisins verði jafngóð, ef ekki betri, á árinu 2014 og hún var á árinu 2013 enda hefur gengið afar vel að fiska í sumar, ekki síst hefur makrílvertíðin verið góð. Til upprifjunar er EBITDA það sem eftir stendur þegar allur kostnaður hefur verið greiddur af rekstri fyrirtækisins, s.s. veiðarfæri, laun, olía og veiðigjöld, svo dæmi séu tekin.
Það vekur athygli að í skýringum með uppgjörinu (skýring 7) kemur fram að veiðigjöld lækka um meira en helming frá sama tíma á síðasta ári. Á fyrri helmingi ársins 2013 greiddi HB-Grandi um1,1 mia.kr. í veiðigjöld en greiðir á sama tíma í ár aðeins 530 m.kr. Eins og allir muna lækkaði ríkisstjórn hægriflokkanna veiðigjöldin á síðasta ári og nú má sjá árangurinn af því í reikningum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna.
Þeir sjá um sína.