Léleg útkoma hjá Landsbankanum

Landsbanki Íslands hefur birt hálfs árs uppgjör sitt vegna yfirstandandi árs. Þar kemur fram að hagnaður bankans á fyrri hluta ársins hafi verið 14,9 mia.kr. sem sé litlu minna en á sama tímabili á síðasta ári. Þegar betur er að gáð lítur hins vegar út fyrir að rekstur bankans sé ekkert sérstakur og tæpast viðunandi.
Hagnaður Landsbankans á fyrri hluta þessa árs samanstendur að langstærstum hluta af virðisaukningu útlána (11.0 mia.kr.) sem er um 77% af hagnaðinum. Bankinn seldi síðan hluta af eign sinni í Framtakssjóði Íslands (4,9 mia.kr.) sem telur líka en bara í þetta eina skipti.  Það er því ekki að sjá að nokkur hagnaður sé af reglulegum rekstri bankans á fyrri hluta ársins. Það hlýtur að valda eigandanum (ríkinu) miklum áhyggjum, ekki síst þar sem líklegt er að gert verði ráð fyrir arðgreiðslum til eigandans í væntanlegu fjárlagafrumvarpi vegna næsta árs. Þær arðgreiðslur verða þá vegna einskiptisaðgerða en ekki af rekstri bankans sem er ekki traustur grunnur að byggja á til framtíðar.
Í fljótu bragði sýnist mér og heyrist sem fjölmiðlar hafi kosið að lesa fréttatilkynningu bankans vegna uppgjörsins og spilað gagnrýnislaust viðtöl við bankastjórann. Það hefði samt ekki þurft að taka meira en svona 15 mínútur í að glugga í uppgjörið og spyrja síðan gagnrýnna spurninga. Heyra jafnvel í fjármálaráðherranum líka. Kannski gerist það í kvöld – eða á morgun.
Hálfs árs uppgjör Landsbanka Íslands er bara ekki nógu gott og krefst frekari skýringa.