Árni Þór Sigurðsson sendiherra hefur skrifað okkur félögum sínum í Vinstri grænum opið bréf þar sem hann reynir að útskýra þá ákvörðun sína að hjálpa íhaldsöflunum að reisa fyrrverandi formann sjálfstæðisflokksins upp frá ruslahaugum sögunnar. Um það snýst þetta mál í grunninn.
Skýringar Árna Þórs vekja upp fleiri spurningar en þær svara. Í bréfinu kemur fram að í kjölfar þess að Árni Þór fékk ekki það starf sem hann sóttist eftir hjá ÖSE hafi sú starfsumsókn hvatt hann til frekari dáða við að finna hæfileikum sínum farveg utan Alþingis. Hvernig ber að skilja þetta í ljósi niðurstöðunnar? Var sendikarlasnúningurinn afrakstur þess? Var þetta þá eftir allt saman hugmynd Árna Þórs og/eða niðurstaða af samræðum hans við utanríkisráðherra?
Er öll sagan sögð? Er það t.d. rétt að þetta ferli hafi jafnvel hafist í aðdraganda kosninganna vorið 2013 með öðrum starfsumsóknum á alþjóðavettvangi?
Árni Þór Sigurðsson verður án nokkurs vafa góður sendiherra og á eftir að verða landi sínu og þjóð til sóma á þeim vettvangi. Það er einnig mikilvægt að sendiherrar Íslands séu ekki einsleitur hópur heldur endurspegli hið pólitíska litróf og samsetningu þjóðarinnar að öðru leyti. Aðdragandi þessa máls er mér hins vegar langt því frá að skapi eins og ég hef áður sagt. Við, fyrrverandi samstarfsfólk hans í Vinstri grænum, höfum einnig liðið fyrir þetta að ósekju enda er málatilbúnaðurinn allur í andstöðu við það sem við stöndum fyrir. Þar af leiðandi hefur trúverðugleiki Vinstri grænna beðið hnekki án þess að flokkurinn eða forysta hans hafi á nokkurn hátt komið að málum og gjörningurinn ekki á okkar ábyrgð.
Verst af öllu er þó að allt er þetta mál sorglegur vitnisburður um hvað okkur sem þjóð gengur illa að klippa á naflastrenginn við fortíðina.
Það finnst mér helvíti skítt.