Dulið atvinnuleysi???

Í kjölfar Hrunsins jókst atvinnuleysi mikið á Íslandi. Aðilar vinnumarkaðarins og fleiri reyndar voru þá svo svartsýnir á framtíðina að þeir spáðu að við myndum slá heimsmet í atvinnuleysi. Það gerðist ekki sem betur fer.
Vinstristjórnin greip til margs konar aðgerða til að sporna við atvinnuleysi og létta þeim lífið sem misstu vinnuna. Eitt af því var að opna fleiri og nýjar leiðir fyrir ungt fólk til náms og var að stærstum hluta samstarfsverkefni ríkisins, atvinnulífsins og skólanna. Þetta tókst afar vel. Mikill fjöldi fólks, sem annars hefði jafnvel orðið atvinnulaus, kaus að fara í nám á ýmsum stigum og margir sem áður höfðu fallið frá námi tóku upp þráðinn að nýju.
Stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili gagnrýndi þetta mjög og vildi jafnvel meina að með þessu væri verið að falsa atvinnuleysistölur og láta ástandið líta betur út en það í rauninni var. Og enn eru þeir til sem líta á það sem einhvers konar vandamál að fólk sé í námi frekar en á vinnumarkaðinum eða jafnvel atvinnulaust. Nú heitir það „dulið atvinnuleysi“ þegar fólk er í námi en ekki í hefðbundinni vinnu. Hvenær er nám atvinnuleysi? Hvað er eðlilegt að margt fólk sé í námi á hverjum tíma og er þá allt umfram einhvern tiltekinn fjölda „dulið atvinnuleysi“? Hvort ætli sé líklegra að þeir sem völdu nám umfram atvinnuleysi verði þeir sem skapi ný tækifæri í framtíðinni eða hinir sem ekki gerðu það einhverra hluta vegna?
Á undanförnum árum hafa margir ungir Íslendingar fundið hæfileikum sínum farveg í námi á ýmsum skólastigum.
Þessu fylgja engin vandamál hvorki dulin né opinber og ekkert nema jákvætt um það að segja að ungt fólk mennti sig.