Ótrúverðug Hanna Birna

Ein af niðurstöðum RNA um Hrunið var að verulega hafi skort á alla formfestu í opinberri stjórnsýslu í aðdraganda Hrunsins, m.a. voru ekki haldnar fundargerðir sem gerði það að verkum að erfitt var að greina hvernig og hverjir tóku ákvarðanir um ýmis mál.
Hann Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra virðist ekki hafa tekið þetta til sín. Hún segist hafa átt fjóra fundi með Stefáni Eiríkssyni og símtöl (veit ekki hvað mörg) um rannsókn lögreglunnar á ráðuneyti hennar. Engar fundargerðir eru til um þessa fjóra fundi. Þeir gætu því allt eins hafa verið fleiri. Engin skrá hefur verið haldin yfir samskipti ráðherrans við lögreglustjórann um þetta mál. Ráðherrann getur ekki lagt fram nokkur gögn til að upplýsa hvað fram fór á fundum hennar með lögreglustjóranum eða í símtölum þeirra. Hún segir sjálf að henni sé ljóst að „ …öll samskipti ráðherra og ráðuneytis í tengslum við rannsóknina á lekamálinu séu viðkvæm í ljósi þeirrar stöðu sem ráðuneytið hefur gagnvart lögreglunni. Þess hef ég gætt sérstaklega í samskiptum mínum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.“
Svo vel reyndar hefur hún gætt að þessu að það er ekkert til um þessi samskipti í ráðuneytinu. Hún er því ein til frásagnar. Það hefði þess vegna aldrei þurft að vitnast um fundina og símtölin nema vegna þess að ráðherrann var kvalinn til þess af umboðsmanni Alþingis að segja frá. Það hefði hún getað gert fyrr og óumbeðin. En gerði það ekki einhverra hluta vegna.
Það er engin ástæða til að trúa því sem ráðherrann segir núna frekar en áður.