Með góðu eða illu

Formaður framsóknarflokksins og forsætisráðherra er í útlöndum og ekki í talsambandi við Ísland. Aðstoðarmaður hans segist hafa tekið af honum símann svo að hann þyrfti hvorki fylgjast með eða tjá sig um erfið mál í heimalandinu.
Formaður sjálfstæðisflokksins neitar að tjá sig um stöðu varaformanns flokksins og innanríkisráðherra sem hefur verið uppvís að því að reyna að hafa áhrif á rannsókn sakamáls gegn sér og ráðuneyti sínu.
Innanríkisráðherrann neitar að tjá sig um málið. Sendir bara frá sér torræð skilaboð í tölvupósti.
Ráðherrar og þinglið stjórnarflokkanna hafa bæði misst andlit og mál. Þau eru horfin af yfirborði jarðar. Þeir sem áður gátu ekki þagnað þó beðnir væru, þegja nú þunnu hljóði. Þeir sem áður gátu ekki þrifist frá degi til dags án þess að tjá sig í fjölmiðlum um öll möguleg og ómöguleg mál eru ný týndir og tröllum gefnir. Það næst ekki í liðið.
Nú reynir á fjölmiðla. Ráðherrar, formenn stjórnarflokka og meirihlutasöfnuðurinn allur getur bara ekki þagað um mál af þessu tagi. Það er einfaldlega ekki heimilt í lýðræðisþjóðfélagi.
Fjölmiðlar verða að krefja þau svara. Hvert af öðru.
Með góðu eða illu.