Ísland er aðili að þingmannasamtökum ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu ásamt nærri 60 öðrum löndum. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi og samvinnu aðildarlandanna og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum. Á ársfundi samtakanna sumarið 2012 flutti meirihluti sendinefndar Íslands tillögu um að Palestína fengi þátttökurétt á þingi ÖSE eins og fleiri þjóðir við Miðjarðarhaf, t.d. Ísrael. Tillagan vakti mikla athygli og umræðu á þinginu bæði á fundinum sjálfum en ekki síður utan hans. Það var í senn bæði ótrúlegt og óhugnanlegt að fylgjast með atgangi fulltrúa Bandaríkjanna við að safna liði til að fella tillöguna. Sem þeim tókst auðvitað. Mann fram af manni, þingnefnd fram af þingnefnd og án þess að fara dult með það, smöluðu þeir saman nægilega miklu liði til að fella tillöguna. Jafnvel fulltrúar Rússlands „gleymdu“ að mæta til atkvæðagreiðslunnar. Eftir atkvæðagreiðsluna gengu fulltrúar Bandaríkjanna síðan á milli þeirra sem greiddu atkvæði gegn tillögunni og þökkuðu þeim stuðninginn.
Auk mín var sendinefnd Íslands skipuð Róberti Marshall og Pétri Blöndal. Róbert flutti tillöguna af skörungsskap og talaði fyrir henni á þinginu. Pétur studdi hana ekki. Ekkert frekar en þingflokkur sjálfstæðisflokksins sem áður hafði neitað að styðja tillögu á Alþingi um sjálfstæði Palestínu eins og sjá má á atkvæðagreiðslu um málið.
Íslandsdeild ÖSE er nú undir forystu Elsu Láru Arnardóttur, þingkonu framsóknarflokksins. ÖSE er ágætur vettvangur fyrir Ísland til að beita sér í málum af þessu tagi. Hver ætli afstaða Elsu Láru sé til málsins? Er hún tilbúin að beita sér í málinu á þessum vettvangi? Er kannski einhver til í að spyrja hana?
Pétur Blöndal er enn í nefndinni. Við vitum hans afstöðu rétt eins og afstöðu sjálfstæðisflokksins.
Ef einhver hefur verið í vafa með það.