Höfum lítið lært

Flestum finnst betra en hitt að hafa úr nokkrum valkostum að velja eigi þeir við vanda að stríða. En ekki öllum. Langt því frá öllum.
Ísland er t.d. í miklum efnahagslegum vanda sem óvíst er hvort eða hvernig muni leysast. Það mætti því ætla að þeir sem stjórna landinu vilji stilla upp nokkrum valkostum til lausnar. En það er ekki þannig.
Þvert á móti keppast ráðherrar ríkisstjórnar hægriflokkanna við að fækka möguleikunum og fagna hverjum þeim sem er tilbúinn að aðstoða þá við það. Finnst það alveg frábært. Það gera þeir vegna þess að þeir taka flokkslega hagsmuni fram yfir almannahagsmuni, sama hvað það kostar. Þeir leggja meira upp úr því að þjóna fjárhagslegu og pólitísku baklandi sínu en sameiginlegum hagsmunum okkar allra. Og reyna ekki að leyna því. Þannig hefur þetta verið áratugum saman og ekkert í augnablikinu sem bendir til þess að breytinga sé að vænta. Sem bendir til þess að við höfum lítið lært.
Sem er í sjálfu sér dapurlegt.