Sagan er ólygnust

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, veltir því fyrir sér á feisbúkksíðu sinni hvers vegna gagnrýni á tillögur stéttarfélaganna um nýtt húsnæðiskerfi komi aðallega innan úr bönkunum. Hann spyr hvort bankarnir óttist að dragi úr áhrifum þeirra á fjármálamarkaðinum eða hvort það sé vegna þess að vaxtastigið verði ekki lengur í þeirra höndum ef tillögur ASÍ og fleiri gangi eftir? Hver veit?
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að reynslan af opinberu húsnæðiskerfi sé svo slæm að það verði að leggja niður án tafar. Mikilvægast af öllu sé að Íbúðalánasjóður verði lagður niður sem fyrst.
Ætli Guðlaugur Þór hafi hugsað þá hugsun til enda ef öll húsnæðislán á Íslandi hefðu verið í höndum einkabanka þegar þeir hrundu allir til grunna haustið 2008 þegar þingmaðurinn var ráðherra í ríkisstjórn Geirs H Haarde? Það er ekki við opinbert húsnæðiskerfi eða Íbúðalánasjóð að sakast hvernig fór heldur stjórnmálamenn og efnahagsstefnu þeirra ríkisstjórna sem Guðlaugur Þór Þórðarson studdi með öllum ráðum.
Stærstu og mikilvægustu skrefin sem tekin hafa verið í húsnæðismálum hér á landi hafa verið að frumkvæði stéttarfélaganna í landinu og samstarfi þeirra við stjórnvöld. Með fullri virðingu fyrir Guðlaugi Þór Þórðarsyni og félögum hans í sjálfstæðisflokknum og fjármálakerfinu er stéttarfélögunum betur treystandi í þessum efnum.
Sagan er ólygnust í þeim efnum sem öðrum.