Fiskistofa til Akureyrar

Það ber að fagna tillögum Sigurðar Inga Jóhannssonar atvinnuvegaráðherra að flytja starfsemi Fiskistofu til Akureyrar. Umræða um það átti sér stað á síðasta kjörtímabili og var ekki annað að heyra þá en að þverpólitísk samstaða væri um þau mál. Aðstæður í samfélaginu voru hins vegar ekki sem bestar til slíkra verka, fasteignaverð hrunið, atvinnuleysi með því hæsta sem gerst hefur, almenn óvissa um efnahagsleg afdrif landsins, auk mikilla breytinga á laga- og regluverki landsins. Þó voru nokkrar stofnanir sameinaðar og verkefni flutt til á milli staða og landshluta. Er skemmst að minnast sameiningar skattstofa í því sambandi.
Það er ekki sama hvernig staðið er að slíkum flutningum, sérstaklega hvað varðar starfsfólk stofnana og breytir þá engu hvar starfsemin er eða hvar fólk býr. Það er ástæðulaust að gera lítið úr þeim hluta málsins eins og mér finnst margir gera. Ef vel er hugað að þeim málum og fólki gefinn tími til að tryggja framtíð sína sem best og það aðstoðað eftir föngum er líklegra en hitt að flutningur stofnana eins og Fiskistofu gangi vel fyrir sig og verði til góðs.
Vonandi verður það raunin varðandi flutninginn á Fiskistofu til Akureyrar.