Er framsóknarflokkurinn stjórntækur?

Það er fullkomlega eðlilegt að nýkjörnir borgarfulltrúar velti því fyrir sér hvort framsóknarflokkurinn sé stjórntækur. Þó það nú væri. Flokkurinn og forysta hans verðskuldar slíkar vangaveltur eftir framgöngu sína í aðdraganda sveitastjórnarkosninganna. Formaður flokksins og ráðherrar hans komu sér öll undan því að svara um afstöðu sína til mismununar eftir trúarbrögðum sem var þó aðalmál flokksins í kosningabaráttunni. Ekkert þeirra kom fram opinberlega í þeim tilgangi að segja af eða á um stefnu flokksins hvað þetta varðar. Feisbúkk-færslur teljast ekki með þegar ráðherrar eiga í hlut.
Spurningin um hvort framsóknarflokkurinn sé stjórntækur eða ekki hlýtur því að vera rædd víðar en í Reykjavík. Það væri í það minnsta óeðlilegt ef samstarfsaðilar framsóknar í sveitastjórnum um land allt veltu þessu ekki líka fyrir sér og spyrðu spurninga. Að ég tali nú ekki um í ríkisstjórn.
Hvað finnst ráðherrum sjálfstæðisflokksins um þetta mál?
Hvað finnst formanni sjálfstæðisflokksins? Er ekki einhver til í að spyrja hann hvort honum finnist ekki rétt að fá úr þessu skorið áður en lengra er haldið? Hann situr jú í umboði framsóknar í ríkisstjórn og því hlýtur það að skipta hann máli hver afstaða húsbónda hans er til svo mikilvægra mála.
Eða hvað?