Sigur heimskunnar

Það á að kjósa á laugardaginn. Er mér sagt. Ég get engan veginn gert mér grein fyrir því um hvað verður kosið. Þó hef ég lagt talsvert á mig til að fylgjast með og kynna mér áherslur flokka og framboða.
Vinstri græn leggja mesta áherslu á að bæta kjör barnafólks og kjör lægstlaunuðu starfsmanna sveitarfélaganna. Flokkurinn hefur lagt fram trúverðuga stefnu um þau mál sem hefur fengið litla gagnrýni á sig. Frambjóðendur flokksins hafa boðið upp á málefnalega rökræðu um stefnumál sín og ævinlega komið vel út úr því. Samt lítur  út fyrir að fólki sé nokkuð sama og muni láta önnur mál ráða atkvæðu sínu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur nú sem hingað til áherslu á að lækka skatta og hefur í fyrsta sinn frá því ég man eftir mér háð málefnalega kosningabaráttu í stað slagsmála. Það virðist heldur ekki skipta neinu máli. Flokkurinn er í frjálsu falli og mun líkast til fá sína verstu kosningu til sveitastjórna ef fram fer sem horfir.
Samfylkingunni hefur tekist að búa til stemningu um Dag B. Eggertsson, þann ágæta dreng. Sú stemning virðist ætla að fleyta flokknum langt um land allt enda hafa frambjóðendur, í skjóli Dags, sloppið við að svara fyrir mörg af sverustu kosningaloforðunum.
Björt Framtíð virðist ekki hafa fastmótaða stefnu í nokkrum málum á sveitastjórnarstiginu frekar en í landsmálunum. En þau vilja vera happy, sem er auðvitað æðislegt. Stefnuleysið virðist heilla marga og flokkurinn mun líklega koma bærilega út úr kosningunum.
Píratar eru, ásamt Bjartri framtíð, afar ólýðræðislegt fyrirbæri. Þingmenn flokksins berja sitt fólk til hlýðni þegar þeim sýnist svo og vinnubrögð þeirra við val á lista og mótun stefnumála eru óljós og óskýr, svo ekki sé nú meira sagt. Píratar gætu unað sáttir við sitt á sunnudaginn, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu.
Framsóknarflokkurinn er að berjast við að ná inn einum manni á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það gerir hann með því að höfða til lægstu hvata hugsanlegra kjósenda. Honum gæti tekist það og komið manni í borgarstjórn. Það yrði þá í fyrsta sinn sem flokkur af þessu tagi fengi kjörinn borgarfulltrúa.
Heimskan er líklegur sigurvegari í kosningunum á laugardaginn.
Það yrði þá ekki í fyrsta skipti.